Einar Bjartur Egilsson

Píanóleikari


Einar Bjartur Egilsson er fæddur 8. mars 1988. Einar lærði í Tónlistarskólanum í Reykjahlíð frá 1995 hjá Wolfgang Tretzsch og Sigríði Þ. Einarsdóttur. Árið 1997 fluttist hann til Reykjavíkur og hóf nám í Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar. Kennarar hans þar voru þær Guðríður St. Sigurðardóttir og Anna Málfríður Sigurðardóttir.


Haustið 2010 hóf hann nám í Listaháskóla Íslands undir handleiðslu Peters Máté og útskrifaðist þaðan með Bachelor-gráðu vorið 2013. Í janúar það ár lék hann einleik í píanókonsert F. Poulencs með Sinfóníuhljómsveit Íslands ásamt fleiri ungum einleikurum. Frá 2013 til 2015 stundaði hann meistaranám í Konservatoríinu í Maastricht í Hollandi, hjá dr. Katiu Veekmans. Í desember 2014 hlaut hann svo styrk úr Minningarsjóði um Birgi Einarsson. Einar hefur samið tónlist fyrir nokkrar stuttmyndir og síðla árs 2015 gaf hann út sína fyrstu hljómplötu að nafni Heimkoma með eigin tónsmíðum.


Um þessar mundir starfar hann sem píanókennari og meðleikari við Tónlistarskóla Árnesinga, Tónskóla Sigursveins, Söngskólann í Reykjavík og Söngskóla Sigurðar Demetz. Hann spilar einnig með kvennakórnum Söngspírunum ásamt Karlakór Grafarvogs. Einar leikur reglulega á tónleikum og viðburðum með ýmsu tónlistarfólki og er einnig á næstu vikum að fara að gefa út nýja breiðskífu með eigin tónlist.